Innlent

Ætla ekki að hjálpa Kaupþingi að fela óhreint tau

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Forsíða vefsetursins WikiLeaks.org.
Forsíða vefsetursins WikiLeaks.org.

Í svarbréfi sem forsvarsmaður heimasíðunnar WikiLeak sendi lögmannateymi Kaupþings þverneitar hann að taka upplýsingar um lántakendur bankans út af síðunni líkt og lögmennirnir höfðu beðið hann um.

„Við munum ekki hjálpa því sem eftir er af Kaupþingi, eða viðskiptamönnum bankans, við að fela óhreina tauið sitt frá alþjóðasamfélaginu," segir í svarbréfinu.

Þar er því jafnframt haldið fram að allar tilraunir Kaupþings eða útsendara fyrirtækisins til að finna þann sem lak skjalinu sé hugsanlega brot á belgískum lögum sem vernda heimildamenn og sænsku stjórnarskránni, án þess að það sé útskýrt frekar.

Þá spyr forsvarsmaðurinn, sem skrifar undir svarbréfið sem Jay Lim, hvaða bandarísku lögmenn séu komnir í málið, en í bréfi lögmanna Kaupþings sögðust þeir vera komnir í samband við lögfræðinga vestanhafs vegna málsins.

Í yfirlýsingu sem Kaupþing sendi frá sér fyrr í kvöld segir að bankinn telji upplýsingar um viðskiptavini bankans ekki eiga erindi við almenning og brjóti gegn bankaleynd.

Bréfasamskipti WikiLeak og Kaupþings má sjá hér.




Tengdar fréttir

Yfirlýsing Kaupþings: Upplýsingar um lán brot á bankaleynd

Verið er að rannsaka uppruna upplýsinga um lántakendur Kaupþings sem birtust á heimasíðunni WikiLeak fyrir sólarhring, að því er fram kemur í yfirlýsingu bankans. Fjármáleftirlitinu hefur verið gert viðvart um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×