Lífið

Stór dagur fram undan hjá skeggkokkum

Spenntir Úlfar og Tómas hlakka til morgundagsins en þá kemur í ljós hvort stýrivextir fara niður fyrir tíu prósent. Fréttablaðið/GVA
Spenntir Úlfar og Tómas hlakka til morgundagsins en þá kemur í ljós hvort stýrivextir fara niður fyrir tíu prósent. Fréttablaðið/GVA

Úlfar Eysteinsson og Tómas Tómasson ætla að leigja sér hestvagn og jólasveinabúning og gefa öllum leikskólabörnum eina litla gjöf ef Seðlabankinn lækkar ekki stýrivexti niður fyrir tíu prósent á morgun. „Við ætlum að fá styrk hjá Seðlabankanum fyrir þessu. Þeir geta ekki sagt nei við þeirri bón,“ segir Úlfar.

Kokkarnir tveir hafa nú safnað skeggi í næstum hálft ár til að mótmæla háum stýrivöxtum. Úlfar viðurkennir að hann hefði aldrei grunað að það myndi taka svona langan tíma að fá stýrivextina niður. Og að það hefði kannski verið skynsamlegra að hefja þessi mótmæli nú í haust.

„Hitinn var alveg að drepa mann í sumar,“ segir Úlfar. Tómas er hins vegar nokkuð sáttur með sitt skegg og sér ekki eftir neinu. Þótt hann játi nú að það verði gott að losna við það. „Annars er svona dökkur tónn í skegginu sem minnir mig á hvernig ég var einu sinni,“ segir Tómas. Úlfar er bjartsýnn fyrir morgundaginn og trúir því að stýrivextirnir fari niður fyrir tveggja stafa tölu

„Það eru allar forsendur fyrir stýrivaxtalækkun; búið að semja um Icesave og aflétta gjaldeyrishömlum að einhverju leyti,“ segir Úlfar. Tómas er ekki jafn bjartsýnn. „Nei, ég held að þeir verði ellefu. Kannski tíu til að friða þjóðina. En ég hef engar áhyggjur, við ætlum ekkert að gefast upp.“ - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.