Viðskipti erlent

Olíuverðið niður fyrir 60 dollara á tunnuna

Heimsmarkaðsverð á olíu féll niður fyrir 60 dollara á tunnuna fyrir helgina og heldur verðið áfram að lækka í dag, stendur nú í rétt rúmum 59 dollurum.

Í frétt um málið á BBC segir að fjárfestar hafi áhyggjur af stöðu efnahagsmála í heiminum og að eftirspurn eftir olíu haldi áfram að dala.

Alþjóðlega orkustofnunin (IEA) spáir því að eftirspurnin muni minnka um 2,9% í ár m.v. árið í fyrra. Reiknar IEA ekki með því að eftirspurn muni aukast fyrr en á næsta ári.

„Allir einblína nú á eftirspurnina," segir Christopher Moltke-Leth forstöðumaður söludeildar Saxo Capital Markets.

Ennfremur segir í frétt BBC að íbúar Norður-Ameríku hafi dregið úr útgjöldum sínum, meðal annars á bensínkaupum og aki nú minna en áður.

Hlutir í olíufélögum hafa fallið í verði á mörkuðum heimsins vegna þessarar þróunar en Moltke-Leth segir að menn bíði nú í eftirvæntingu eftir uppgjörum þeirra fyrir annan ársfjórðung.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×