Sport

Sögulegur sigur hjá Murray

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andy Murray fagnar innilega í gær.
Andy Murray fagnar innilega í gær. Nordic Photos / AFP
Skotinn Andy Murray vann í gær sögulegan sigur á Stanislas Wawrinka í 16-manna úrslitum einliðaleiks karla á Wimbledon-mótinu í tennis í gær.

Þetta var í fyrsta sinn sem viðureign á mótinu fer fram undir flóðljósum en henni lauk ekki fyrr en rétt fyrir ellefu í gærkvöldi að staðartíma. Hefur viðureign aldrei lokið svo seint að kvöldi til á mótinu.

Murray lenti í vandræðum til að byrja með og tapaði fyrsta settinu, 6-2. Hann vann svo næstu tvö settin, bæði 6-3, áður en Wawrinka jafnaði metin í fjórða settinu, 7-5. Murray vann svo oddasettið, 6-3.

Murray var vel studdur af heimamönnum sem hafa beðið í áraraðir eftir breskum sigurvegara á Wimbledon-mótinu.

Í ár er einnig hægt að draga fram þak yfir aðalvöllinn í fyrsta sinn og var það gert í gær eftir rigningaskúri.

"Það er alltaf frábær stemning innanhúss en hún var sérstaklega góð þegar maður er studdur áfram af fimmtán þúsund manns. Ég er þakklátur fyrir það," sagði Murray.

Það var í viðureigninni á undan þessari sem að keppt var í fyrsta sinn undir þaki á Wimbledon-mótinu. Þá mættust Danira Safina og Amelie Mauresmo sem sú fyrrnefnda vann naumlega, 4-6, 6-3 og 6-4.

Nú er ljóst hverjir mætast í fjórðungsúrslitum einliðaleiks karla og kvenna:

Karlaflokkur:

Lleyton Hewitt (Ástralíu) - Andy Roddick (Bandaríkjunum)

Andy Murray (Bretlandi) - Juan Carlos Ferrero (Spáni)

Tommy Haas (Þýskalandi) - Novak Djokovic (Serbíu)

Ivo Karlovic (Króatíu) - Roger Federer (Sviss)

Kvennaflokkur:

Dinara Safina (Rússlandi) - Sabine Lisicki (Þýskalandi)

Venus Williams (Bandaríkjunum) - Agnieszka Radwanska (Póllandi)

Francesca Schiavone (Ítalíu) - Elena Dementieva (Rússlandi)

Victoria Azarenka (Hvíta-Rússlandi) - Serena Williams (Bandaríkjunum)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×