Innlent

Íslenskir dópsmyglarar í Brasilíu: Fjórir teknir á fjórum árum

Frá Recife í Brasilíu þar sem Ragnar Erling var tekinn á föstudaginn.
Frá Recife í Brasilíu þar sem Ragnar Erling var tekinn á föstudaginn.
Ragnar Erling Hermannsson sem handtekinn var í borginni Recife í Brasilíu á föstudagskvöldið fyrir innflutning á tæpum sex kílóum af kókaíni er ekki fyrsti íslendingurinn sem handtekinn er fyrir fíkniefnasmygl þar í landi. Frá því í júní 2006 hafa þrír aðrir íslendingar verið handteknir vegna fíkniefnasmygls, ýmist á leið úr landi eða inn í landið. Íslendingarnir hafa verið með kókaín, hass og barnapúður og voru allir dæmdir til fangelsisvistar í landinu.

Brasilíufanginn með barnapúðrið

Hlynur Smári Sigurðarson (24 ára) var handtekinn í júní árið 2006 með tvær pakkningar af ætluðum fíkniefnum í fórum sínum. Í annarri voru 100 grömm af kókaíni en í hinni um tvö kíló af efni sem reyndist við efnagreiningu vera barnapúður. Hlynur hlaut þriggja ára fangelsisdóm en hann hafði setið inni í níu og hálfan mánuð áður en dómur féll og kom það til frádráttar. Hlynur Smári lýsti skelfilegum aðbúnaði í fangelsinu sem hann dvaldi í í viðtali við Fréttablaðið á sínum tíma. Þá lýsti hann því þegar samfangi hans reyndi að drepa hann fyrir sígarettu og sagðist ganga með tálgaðan tannbursta á sér ef ske kynni að einhver réðist á hann. Hann deildi einnig tveggja manna klefa með tíu öðrum föngum og fékk ekkert nema myglað brauð og ormafullt vatn sér til næringar.



Hasssmyglarinn frá Amsterdam


Ingólfur Rúnar Sigurz (30 ára) var handtekinn í ágúst árið 2006 með tólf kíló af hassi á flugvellinum í Sao Paulo en hann var að koma til landsins frá Amsterdam. Við gegnumlýsingu fundust í farangri hans 12,2 kíló af hassi og í kjölfarið fjórar e-töflur. Ingólfur játaði smyglið við yfirheyrslur og var það talið honum til refsilækkunar en hann var dæmdur í sex ára og átta mánaða fangelsi. Ingólfur sagði þessa ferð vera þá fyrstu sem hann hafi farið til Brasilíu. Hann hafi greitt fimm þúsund dali fyrir efnin í Amsterdam og ætlaði að selja það upp á eigin spýtur. Hann hefði engan tengilið í Brasilíu.



Einfarinn með kókaínið


Karl Magnús Grönvold (29 ára) var í júní árið 2007 handtekinn við komuna til Brasiliu og á honum fannst kókaín. Fyrstu fregnir frá þarlendum yfirvöldum hermdu að hann hefði haft sex kíló af kókaínin í fórum sínum, en kílóin voru á endanum einungis tvö og hálft. Karl Magnús var dæmdur í fangelsi í þrjú ár og ellefu mánuði en hann situr inni í Útlendingafangelsi um 300 kílómetra fra Sao Paulo. Líkt og Ingólfur Rúnar sagðist Karl Magnús hafa átt frumkvæði að smyglinu og ekki eiga sér vitorðsmenn.




Tengdar fréttir

Íslendingur tekinn með sex kíló af kókaíni í Brasilíu

Tuttugu og fjögurra ára gamall Íslendingur var handtekinn á flugvelli í Brasilíu á leið sinni til Spánar með tæp sex kíló af hreinu kókaíni í fórum sínum. Fulltrúar alríkislögreglu Brasilíu handtóku piltinn á Alþjóðaflugvellinum í Recife á föstudagskvöldið en hann var þá á leið til Malaga á Spáni. Þetta kom fram í hádegisfréttum Rúv en brasilískir fjölmiðlar hafa sagt hann heita Ragnar Hermannsson.

Fjölmiðlar í Brasilíu sýna máli Ragnars mikinn áhuga - myndband

Brasilískir fjölmiðlar fjalla mikið um mál Ragnars Erlings Hermannssonar sem handtekinn var á föstudagskvöldið með tæp sex kíló af kókaíni á Alþjóðaflugvellinum í Recife í Brasilíu. Fíkniefnafundurinn mun vera sá stærsta á árinu á flugvellinum en brasilískur karlmaður sem var á leið í sama flug og Ragnar var tekinn með kíló af kókaíni.

Var hættur að mæta í vinnuna

„Mér fannst eins og hann væri kominn í einhverja óreglu en ég get ekki fullyrt það. Hann svaf yfir sig í hádeginu og kom of seint. Þess vegna urðum við að láta hann fara," segir Linda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×