Lífið

Geir Jón rakaði sig fyrir eiginkonuna

Breytt útlit. Geir Jón er svo unglegur að dóttir hans þekkti hann ekki þegar hún sá hann án skeggsins.
Breytt útlit. Geir Jón er svo unglegur að dóttir hans þekkti hann ekki þegar hún sá hann án skeggsins.

„Ég var að sýna konunni hvernig ég lít út. Við áttum trúlofunarafmæli og hana langaði að sjá hvernig ég leit út þegar við trúlofuðum okkur. Ég rakaði allt af og sagði „svona var ég“. Henni leist vel á og vill að ég verði svona,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík.

Ungleg ásýnd Geirs Jóns hefur vakið athygli undanfarna daga. Áður en hann rakaði sig hafði hann verið verið skeggjaður í fjöldamörg ár – svo lengi að dóttir hans ætlaði varla að þekkja hann án andlitsháranna. „Henni brá þegar hún sá mann í mínum hægindastól. Hún hefur líklega aldrei séð mig skegglausan,“ segir hann.

Geir Jón segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð frá fólki, þó að hann sé sjálfur ennþá að venjast breyttu útliti. „Ég er að jafna mig á þessu. Mér fannst ég vera eins reytt hænurassgat. Þetta eru viðbrigði. En fólki finnst ég vera svo miklu unglegri – maður yngist upp við þetta. Ekki veitti af!“

Afbrotamenn hafa hingað til ekki gert sérstakar athugasemdir við skeggleysi Geir Jóns og enginn hefur farið mannavillt. „Nei, ég hef ekki orðið var við það,“ segir hann. „Það þekkja mig nú allir þó að ég sé búinn að raka mig.“- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.