Fjármálakreppan er gósentíð fyrir mafíuna á Ítalíu. Í augnablikinu er mafían að festa tök sín í efnahagslífi landsins með kaupum á fyrirtækjum og eignum sem eru á fallandi fæti.
Í nýrri skýrslu sem leyniþjónusta Ítalíu hefur birt kemur fram að menn á vegum mafíunnar hafi verið stórtækir í kaupum á fyrirtækjum í verslunargeira landsins og ferðamannaiðnaðinum auk þess að vera umfangsmiklir á fasteignamarkaðinum.
Mafían notar hagnað sinn af fíkniefnasölu og annarri glæpastarfsemi til að fjármagna þessi kaup sín. Það kemur mafíunni til góða nú að hún hefur mikið af reiðufé á milli handanna meðan að bankar og fjármálastofnanir halda að sér höndunum með útlán.
Í ástandinu sem ríkir nú hagnast mafían einnig gífurlega á okurlánastarfsemi sinni enda leita margir á náðir okurlánara þar sem ekki er annað lánsfé að hafa.