Lífið

Eurovision-lag Bubba á ensku

í Kjósinni. Bubbi Morthens og Óskar Páll á heimavelli semja hresst „ó-eurovisionlegt“ lag.
í Kjósinni. Bubbi Morthens og Óskar Páll á heimavelli semja hresst „ó-eurovisionlegt“ lag.

Óskar Páll Sveinsson og Bubbi Morthens eru meðal þeirra sem semja lag í Eurovision-forkeppnina sem hefst strax eftir áramót. „Við hentum niður nokkrum hugmyndum til að byrja með og vinsuðum svo úr þeim,“ segir Óskar Páll.

„Duttum að lokum á hugmynd sem við erum báðir mjög ánægðir með og erum búnir að vera að þróa hana. Erum nánast komnir á endapunkt.“

Lagið er miklu hraðara og fjörugra en Is It True? sem Óskar Páll samdi síðast. „Lagið er frekar hresst og mjög melódískt. Við ákváðum að hafa það ekki Eurovision-legt. Það virkaði vel í fyrra. Þetta er bara gott lag.“

En er það Bubbalegt?„Auðvitað er Bubbakeimur af því. Ég er viss um að fólk heyrir eitthvað af hans elementum þarna, skárra væri það nú. Bubbi sýndi með Ególögunum í sumar að hann er enn í toppformi sem melódíusmiður.“

Óskar segir að samstarfið hafi gengið mjög vel. „Við erum hálfpartinn að halda upp á tuttugu ára samstarfsafmæli með þessu, en höfðum aldrei samið saman áður. Við erum búnir að ákveða að gera meira af þessu í framtíðinni. Þetta small svo vel og var svo gríðarlega skemmtilegt.“

Færeyski söngvarinn Jógvan á að syngja lagið, sem verður á ensku. „Við vorum á báðum áttum um hvaða tungumál við ættum að nota. Ákváðum svo bara að kasta upp á það og þá kom enskan upp. Það er von á Jógvani hingað í stúdíóið í dag til að heyra lagið og við vonum bara það besta!“

Alls keppa fimmtán lög. Meðal þeirra sem etja kappi við Bubba, Óskar og Jógvan eru Hera Björk ásmat Örlygi Smára og svo Hvanndalsbræður. Forkeppnin hefst laugardagskvöldið 9. janúar og úrslitin liggja fyrir fjórum vikum síðar, 6. febrúar.- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.