Lífið

Óðmenn í Þýskalandi

Við Tjarnarbíó 1970. Óðmenn spiluðu þar í poppleiknum Óla og mikið af því efni endaði á tvöföldu plötunni sem nú er komin út í Þýskalandi.
Við Tjarnarbíó 1970. Óðmenn spiluðu þar í poppleiknum Óla og mikið af því efni endaði á tvöföldu plötunni sem nú er komin út í Þýskalandi.

Tvöfalda plata Óðmanna frá 1970 hefur verið endurútgefin á CD og 180 gramma vínylplötum af þýska endurútgáfufyrirtækinu Shadoks Music. Fyrirtækið sérhæfir sig í að bjarga menningarverðmætum frá glötun og koma þeim til áhugasamra hlustenda. Aðallega verða fyrir valinu lítt þekktar en góðar plötur frá 7. og 8. áratugnum.

„Það er mjög gott að skipta við Þjóðverja. Þeir eru mjög góðir í viðskiptum og það er búið að leggja inn á reikninginn minn fyrir minn hluta,“ segir Jóhann G. Jóhannsson, kampakátur með framtakið.

Hverju þakkar hann þessa lífseiglu Óðmanna? „Þetta er bara góð músík. Í safnarablöðum – er mér sagt, ég er ekki safnari – þykir þetta ein merkilegasta plata þessarar tegundar á Norðurlöndum. Það er gaman að fá svoleiðis hrós,“ segir Jóhann og bætir við: „Þó að hún hafi ekki komist á listann yfir 100 bestu íslensku plöturnar. Það er náttúrlega þannig að þegar músíkin heyrist aldrei rofna tengslin við fólk í dag. Það eru helst einhverjir ungir framúrstefnurokkarar sem grafa þetta upp og kveikja á þessu.“

Óðmanna-platan er sú fyrsta íslenska sem Shadoks Music gefur út en útgáfan lætur ekki staðar numið þar því fram undan er sambærileg útgáfa á þremur plötum með Trúbroti og plötunni What’s Hidden There? með Svanfríði.

- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.