Viðskipti erlent

Tekur fimm ár að gera upp starfsemi Straums í Danmörku

Oscar Crohn forstjóri Straums í Danmörku telur að það taki um fimm ár að gera starfsemi bankans upp þar í landi og ganga frá öllum lausum endum.

Þetta kemur fram í viðtali Börsen við Crohn en þriðjungi starfsmanna Straums í Danmörku, níu manns, var sagt upp í gær samhliða uppsögnunum hérlendis og í Bretlandi.

Crohn segir að hann hafi ekki gert neinn samning enn um starfslok sín hjá Straumi og reiknar því með að gegna forstjórastöðunni áfram.

"Ég hef verið meira upptekinn en nokkurn tímann við að halda þeim hlutum gangandi sem við vinnum með," segir Crohn. "Og það á eftir að gera áætlun um nánustu framtíð bankans hér."

Crohn segir að Straumur eigi töluvert margar eignir og ítök í Danmörku og málið sé að halda utanum þær.

"Það hefur ekki verið ákveðið hvað muni gerast nú en nokkur mál eru komin í farveg í samvinnu við kröfuhafa bankans," segir Crohn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×