Innlent

Áfram rætt um aðildarumsókn

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Síðari umræða um þingsályktun ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður við Evrópusambandið stóðu fram undir miðnætti í nótt og hefjast aftur klukkan hálf ellefu.

Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins, sem talin er vera mikill andstæðingur Evrópusambands aðildar, lagði í gær fram breytingartillögu við ályktunina, þar sem ítarlegra er farið í skilyrði fyrir aðild í tillögu greininni sjálfri. Í tillögugreininni eins og hún var afgreidd frá meirihluta utanríkismálanefndar segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar."

Breytingartillga Vigdísar hljómar hins vegar eftirfarandi: „Alþingi ályktar að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. Þá verði fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið verði opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu."

Að auki vill Vigdís herða á skilyrðum í greinargerð ályktunarinnar, m.a. að skýr og einhliða úrsagnarréttur úr Evrópusambandinu verði hluti aðildarsamnings. Meirihluti utanríkismálanefndar gerði nokkrar breytingar á tillögugrein málsins og skilaði einnig frá sér um 40 síðna greinargerð, þar sem stjórnvöldum er settur vegvísir í viðræðum við Evrópusambandið og helstu hagsmunir Íslendinga, svosem í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum eru tíundaðir.

Ólíklegt má telja að breytingartillga Vigdísar verði samþykktar enda tók það meirihluta utanríkismálanefndar sex vikur að komast að niðurstöðu um hana.

Tveir þingmenn Framsóknarflokksins lýstu í gær yfir stuðningi við tillögu ríkisstjórnarinnar og töldu að með henni væri skilyrðum Framsóknarflokksins fyrir aðildarviðræðum mætt. Engu að síður má búast við að fimm til sjö af níu þingmönnum Framsóknar greiði atkvæði gegn aðildartillögunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×