Innlent

Eyðileggingin algjör

Bruni Engar úrbætur að ráði voru gerðar á Hótel Valhöll eftir að svört skýrsla um ástand hússins var birt árið 2006. Þar kom fram að töluvert skorti á að húsið uppfyllti kröfur um brunavarnir. Hótelið brann til kaldra kola í gær.

„Það kemur fram í skýrslunni að þetta er slysagildra þannig að fyrst eldur varð laus var ég ekki hissa á þessum endalokum," segir Þorsteinn Gunnarsson arkitekt, annar tveggja sem unnu skýrsluna.

Eldur varð laus í Hótel Valhöll á fimmta tímanum í gær. Flest bendir til þess að eldsupptök hafi verið í reykháf í eldhúsi, segir Úlfar Þóris­son, sem tók við rekstri hótelsins í maí síðastliðnum.

Einn starfsmanna hótelsins þurfti aðhlynningu vegna reyk­eitrunar, og var hann fluttur á Landspítalann í Reykjavík. Aðra sakaði ekki í brunanum.

„Þetta gerðist allt mjög hratt og húsið fylltist fljótlega af reyk," segir Úlfar. Hann segir húsið hafa verið rýmt um leið og eldurinn kviknaði. Fáir voru á hótelinu þegar eldurinn kviknaði, en til stóð að slá upp grillveislu um kvöldið og halda tónleika.

Húsið var alelda þegar slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu komu á staðinn. Þeir börðust við eldinn ásamt slökkviliðs­mönnum frá höfuð­borgar­svæðinu, en fengu lítið við eldinn ráðið.

Húsið er mikið skemmt og talið ónýtt. Slökkviliðsmenn unnu fram eftir kvöldi við að slökkva glæður, og til stóð að halda vakt við húsið í nótt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×