Viðskipti erlent

Háskólagjöld Breta hækka vegna íslenska bankahrunsins

Samtök háskóla í Bretlandi (Universities UK) hafa birt skýrslu þar sem fram kemur að skólagjöld nemenda við þessa skóla verði að hækka verulega m.a. vegna taps sumra þeirra á innistæðum sínum í íslensku bönkunum þegar þeir komust í þrot s.l. haust.

Skýrslan er byggð á viðhorfum rektora við 133 háskóla til fjármögnunar háskólanna í framtíðinni. Þar kemur m.a. fram að skólagjöldin þurfi að hækka að jafnaði í a.m.k. 5.000 pund á ári eða í tæpa milljón kr.

Í umfjöllun breska blaðsins Guardian segir að háskólarnir hafi orðið verulega fyrir barðinu á fjármálakreppunni og fylgifiskum hennar allt frá hruni íslensku bankanna og upp í að vera fórnarlömb í Ponzi-svikamyllu Bernard Madoff á Wall Street.

Guardian tekur Manchester Metropolitan háskólann sem dæmi um háskóla sem fór verulega illa út úr hruni íslensku bankanna en skólinn tapaði 10 milljónum punda, nær tveimur milljörðum kr. í hruni þeirra.

Raunar töpuðu aðrir þekktari háskólar, eins og t.d. Oxford og Cambridge mun hærri upphæðum á íslensku bönkunum en Manchester Metropolitan. Oxford, sem tapaði um 30 milljónum punda, var hinsvegar mun betur staddur fjárhagslega og með öflugri bakhjarla en Metropolitan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×