Körfubolti

NBA í nótt: Lakers vann Utah

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Millsap sækir að Pau Gasol í leiknum í nótt.
Paul Millsap sækir að Pau Gasol í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Það er ljóst að LA Lakers mætir Utah í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eftir að þessi lið mættust í nótt á næstsíðasta keppnisdegi deildakeppninnar.

Lakers vann Utah, 125-112, í síðasta leik beggja liða á tímabilinu. Með sigri hefði Utah átt möguleika á að koma sér upp í sjötta eða sjöunda sæti Vesturdeildarinnar en Lakers sá til þess að svo fór ekki.

Lakers var fyrir löngu búið að tryggja sér efsta sæti deildarinnar og það verða því þessi tvö lið sem mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Denver er öruggt með annað sætið í deildinni en annars ríkir mikil spenna um hin sætin. Houston, Portland og San Antonio eru öll hnífjöfn í 3.-5. sætinu og New Orleans og Dallas eru jöfn í 6.-7. sæti. Öll þessi lið eru að spila í kvöld.

Boston og Philadelphia áttust við í svipuðum leik í nótt. Boston vann leikinn, 100-98, sem gerir það að verkum að Philadelphia á litla möguleika á sjötta sætinu í Austurdeildinni. Það verða því þessi tvö lið sem munu af öllum líkindum mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Austrinu.

Kevin Garnett og Ray Allen léku ekki með Boston í nótt en Paul Pierce skoraði 31 stig auk þess sem að varamenn liðsins áttu góðan leik.

Philadelphia mætir Cleveland í kvöld og þarf á sigri að halda í þeim leik til að eiga möguleika á sjötta sætinu. Philadelphia þarf þar að auki að stóla á að Toronto vinni Chicago í kvöld.

Atlanta vann Miami, 81-79. Það var ljóst fyrir leikinn að þessi lið munu mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en bæði lið hvíldu sína lykilmenn í leiknum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×