Innlent

Kærði leigubílstjóra fyrir nauðgun

Leigubílstjórar sem Fréttablaðið ræddi við í gær undirstrikuðu nauðsyn þess að málið upplýstist sem allra fyrst.
Leigubílstjórar sem Fréttablaðið ræddi við í gær undirstrikuðu nauðsyn þess að málið upplýstist sem allra fyrst.

Tæplega þrítug kona hefur kært leigubílstjóra á höfuðborgarsvæðinu fyrir nauðgun. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins var konan stödd í gleðskap í Reykjavík aðfaranótt 23. nóvember. Þá tók hún leigubíl úr miðborginni og heim til sín á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er ljóst með hverjum hætti atburðarás var eftir að hún tók bílinn, en svo virðist sem hún hafi vaknað við það á heimili sínu að bílstjórinn var að hafa við hana samfarir. Hún leitaði nokkru síðar á neyðarmóttöku þolenda nauðgunar á Landspítalanum í Fossvogi.

Hinn 3. desember lagði konan svo fram kæru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Málið er í fullri rannsókn að sögn Björgvins Björgvinssonar, yfirmanns ofbeldisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann vill ekki tjá sig um efnisatriði málsins að öðru leyti en því að rætt hafi verið við forsvarsmenn leigubifreiðastöðva á höfuðborgarsvæðinu, svo og nokkra einstaklinga, vegna málsins.

Leigubílstjórar sem Fréttablaðið ræddi við í gær lýstu miklum áhyggjum af því að mál af þessum toga væri komið upp. Nauðsynlegt væri að það upplýstist sem allra fyrst.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×