Skandinavíska flugfélagið SAS hefur ákveðið að segja upp allt að fimmtánhundruð starfsmönnum til þess að reyna að rétta af fjárhag félagsins sem barist hefur í bökkum eins og fleiri flugfélög.
Á síðustu sex mánuðum hefur fyrirtækið tapað um 750 milljónum danskra króna eða um tíu milljörðum íslenskra að því er danska ríkisútvarpið greinir frá í dag.
Því er nauðsynlegt að sögn stjórnenda fyrirtækisins að lækka flugið enn frekar en félagið hefur á síðustu misserum dregið saman seglin, sagt upp fjölda fólks og minnkað þjónustuna.