Viðskipti erlent

Breskum milljónamæringum fækkar um helming

Breskum milljónamæringum, í pundum talið, hefur fækkað um helming síðan fjöldi þeirra náði hámarki árið 2007.

Í ár eru þeir orðnir 242.000 talsins en á velmektardögunum 2007 náði fjöldi þeirra tölunni 489.000.

Í umfjöllun um málið í Guardian segir að bólan á fasteignamarkaði Bretlands hafi einkum gert það að verkum að fjöldi breskra milljónamæringa náði hámarki. Hrunið á markaðinum sem fylgdi í kjölfarið dró síðan verulega úr fjölda þeirra.

Miðstöð hagfræði- og efnahagsrannsókna í Bretlandi (CEBR) hefur tekið saman tölur um milljónamæringanna. Douglas McWilliams forstöðumaður CEBR segir að mikill fjöldi af aukningunni sem varð 2007 sé fólk sem rétt skreið yfir mörkin að eiga milljón pund þegar fasteignir þeirra hækkuðu gífurlega í verði.

„Eftir að hafa skriðið rétt yfir mörkin, skreið þetta fólk fljótt undir þau aftur. Margir án þess að vita af því að þeir voru orðnir milljónamæringar um stund," segir McWilliams.

CEBR hefur nú afturkallað spá sína um að milljónamæringar í Bretlandi muni ná tölunni 760.000 árið 2010. Hinsvegar reiknar miðstöðin með að þeim fari aftur fjölgandi frá og með árinu 2011.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×