Umsátursástand í Seðlabankanum Óli Kristján Ármannsson skrifar 9. febrúar 2009 06:00 Undarleg staða er upp komin í efnahagsmálum landsins með því að tveir af þremur bankastjórum Seðlabanka Íslands ætla að draga lappirnar í nauðsynlegum umbótum sem hér er unnið að í efnahagsstjórninni. Deilur bankastjórnar Seðlabankans við ríkisstjórnina gera lítið fyrir trúverðugleika Seðlabankans. Trúverðugleika sem þó var lítill til að byrja með. Hlutverk Seðlabankans er að tryggja hér fjármálastöðugleika. Það mistókst. Erlendir sérfræðingar sem fjallað hafa um íslenskt efnahagslíf og fall fjármálakerfisins hafa furðað sig á því að ekki skuli hafa verið skipt út stjórn Seðlabankans. Willem H. Buiter, prófessor við London School of Economics, benti réttilega á, í heimsókn sinni hingað til lands í síðasta mánuði, að trúverðugleiki íslensks fjármála- og efnahagskerfis verði ekki endurreistur á erlendri grundu nema að hér verði skipt um æðstu stjórnendur í peninga- og efnahagsmálum. Endurreist traust er svo ekki bara upp á punt heldur hefur það bein áhrif á hvaða kjör ríkinu og Seðlabankanum bjóðast í nauðsynlegum erlendum lántökum í endurreisnarstarfinu sem hér er fyrir dyrum. Nýtt fólk er komið að borðinu í forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyti og um mánaðamótin næstu taka nýir við stjórnartaumunum í Fjármálaeftirlitinu. Í Seðlabankanum ætla hins vegar tveir af þremur bankastjórum að sitja sem fastast. Óneitanlega vaknar spurningin um hverra hag þeir bera helst fyrir brjósti í þeirri ákvörðun sinni. Tæpast er það þjóðarhagur. Um leið sýnir þessi tímabundna pattstaða í deilum ríkis- og Seðlabankastjórnar hversu mikilvægt það er að vanda til verks við setningu nýrra laga um stjórn Seðlabankans. Í frumvarpinu er hvergi gert ráð fyrir aðstoðarbankastjórum, sem er mjög óvenjulegt þegar horft er til þess hvernig málum er fyrir komið í þeim löndum sem við miðum okkur við. Komi til þess að seðlabankastjóri forfallist er ráð fyrir því gert að forsætisráðherra skipi nýjan í staðinn, í stað þess að varamaður taki við. Komi þessi staða upp á tímum þar sem reynir mjög á í samskiptum banka og ríkisstjórnar um stefnu í efnahagsmálum getur það orðið til að grafa undan sjálfstæði bankans. Þá eru seðlabankastjóra færð mikil völd í hendur því samkvæmt frumvarpinu velur hann sjálfur þá sem sitja skulu í svonefndri „peningastefnunefnd". Þótt góður maður geti sjálfsagt skipað góða peningastefnunefnd þá geta mönnum verið mislagðar hendur og jafnvel getur farið svo að misjafnir menn komist til valda. Lög sem hér eru sett um stjórn peningamála þurfa að vera víðtækari en svo að þau séu sniðin að lundarfari og mannkostum einhvers sem menn sjá fyrir sér að eigi að taka hér við stjórnartaumunum í Seðlabankanum. Horfa þarf lengra fram á veginn en svo. Hitt er annað mál að ganga þarf rösklega til verks á þinginu til að skera megi á þann undarlega hnút sem upp er kominn í samskiptum bankastjórnar Seðlabankans og ríkisvaldsins. Óskandi væri að aðalleikarar í deilunni næðu að taka eigin persónu út fyrir sviga og höguðu gjörðum sínum í samræmi við þjóðarhag. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Hver er munurinn á Viðreisn og Samfylkingu? Soffía Svanhvít Árnadóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Annarra manna peningar eru peningar okkar allra Davíð Þór Jónsson Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Ég á ‘etta, ég má ‘etta Jón Ármann Steinsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun
Undarleg staða er upp komin í efnahagsmálum landsins með því að tveir af þremur bankastjórum Seðlabanka Íslands ætla að draga lappirnar í nauðsynlegum umbótum sem hér er unnið að í efnahagsstjórninni. Deilur bankastjórnar Seðlabankans við ríkisstjórnina gera lítið fyrir trúverðugleika Seðlabankans. Trúverðugleika sem þó var lítill til að byrja með. Hlutverk Seðlabankans er að tryggja hér fjármálastöðugleika. Það mistókst. Erlendir sérfræðingar sem fjallað hafa um íslenskt efnahagslíf og fall fjármálakerfisins hafa furðað sig á því að ekki skuli hafa verið skipt út stjórn Seðlabankans. Willem H. Buiter, prófessor við London School of Economics, benti réttilega á, í heimsókn sinni hingað til lands í síðasta mánuði, að trúverðugleiki íslensks fjármála- og efnahagskerfis verði ekki endurreistur á erlendri grundu nema að hér verði skipt um æðstu stjórnendur í peninga- og efnahagsmálum. Endurreist traust er svo ekki bara upp á punt heldur hefur það bein áhrif á hvaða kjör ríkinu og Seðlabankanum bjóðast í nauðsynlegum erlendum lántökum í endurreisnarstarfinu sem hér er fyrir dyrum. Nýtt fólk er komið að borðinu í forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyti og um mánaðamótin næstu taka nýir við stjórnartaumunum í Fjármálaeftirlitinu. Í Seðlabankanum ætla hins vegar tveir af þremur bankastjórum að sitja sem fastast. Óneitanlega vaknar spurningin um hverra hag þeir bera helst fyrir brjósti í þeirri ákvörðun sinni. Tæpast er það þjóðarhagur. Um leið sýnir þessi tímabundna pattstaða í deilum ríkis- og Seðlabankastjórnar hversu mikilvægt það er að vanda til verks við setningu nýrra laga um stjórn Seðlabankans. Í frumvarpinu er hvergi gert ráð fyrir aðstoðarbankastjórum, sem er mjög óvenjulegt þegar horft er til þess hvernig málum er fyrir komið í þeim löndum sem við miðum okkur við. Komi til þess að seðlabankastjóri forfallist er ráð fyrir því gert að forsætisráðherra skipi nýjan í staðinn, í stað þess að varamaður taki við. Komi þessi staða upp á tímum þar sem reynir mjög á í samskiptum banka og ríkisstjórnar um stefnu í efnahagsmálum getur það orðið til að grafa undan sjálfstæði bankans. Þá eru seðlabankastjóra færð mikil völd í hendur því samkvæmt frumvarpinu velur hann sjálfur þá sem sitja skulu í svonefndri „peningastefnunefnd". Þótt góður maður geti sjálfsagt skipað góða peningastefnunefnd þá geta mönnum verið mislagðar hendur og jafnvel getur farið svo að misjafnir menn komist til valda. Lög sem hér eru sett um stjórn peningamála þurfa að vera víðtækari en svo að þau séu sniðin að lundarfari og mannkostum einhvers sem menn sjá fyrir sér að eigi að taka hér við stjórnartaumunum í Seðlabankanum. Horfa þarf lengra fram á veginn en svo. Hitt er annað mál að ganga þarf rösklega til verks á þinginu til að skera megi á þann undarlega hnút sem upp er kominn í samskiptum bankastjórnar Seðlabankans og ríkisvaldsins. Óskandi væri að aðalleikarar í deilunni næðu að taka eigin persónu út fyrir sviga og höguðu gjörðum sínum í samræmi við þjóðarhag.