Formúla 1

Barrichello fyrstur, Ferrari og McLaren eflast

Rubens Barrichello var fljótastur allra á götum Mónakó í morgun.
Rubens Barrichello var fljótastur allra á götum Mónakó í morgun. Mynd: Getty Images
Brasilíumaðurinn Rubens Barrichello á Brawn var fljótastur á fyrstu æfingu keppnisliða í morgun um Mónakó brautina. Barrichello varð 0.3 sekúndum fljótari en Felipe Massa á Ferrari. Nokkuð mikill munur var annars á fremstu bílunum á æfingunni.

Heimsmeistarinn Lewis Hamilton reyndist sannspár varðandi eigin möguleika í Mónakó, ef marka má fyrstu æfingu keppnisliða. Hann segir McLaren eiga góða möguleika í móti helgarinnar og hann náði þriðja besta tíma.

Sól og gott veður er í Mónakó og ökumenn nýttu það til að þræða krókótta Mónakó brautina, sem er mjög erfitt viðfangsefni. Nokkrir ökumenn búa á staðnum og Nico Rosberg er einn þeirra. Hann náði fimmta besta tíma á Williams. Mark Webber á Red Bull hefur alltaf verið sprettharður á götum furstadæmisins en vélin bilaði hjá honum á æfingunni.

Bæði Ferrari og McLaren virðast hafa náð betri tökum á bílum sínum og bæði liðin munu nota KERS kerfið í bílum sínum, sem gefur þeim 80 auka hestöfl. Það er helst hægt að nýta á ráskaflanum í Mónakó. Sýnt verður frá æfingunum í kvöld á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×