Fótbolti

Juve hefði getað unnið án þjálfara á bekknum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. Nordic Photos/Getty Images

Ítalinn Claudio Ranieri er greinilega ekki alveg kominn yfir það að hafa verið rekinn frá Juventus um miðjan síðasta mánuð. Hann fékk sparkið í kjölfar sjö leikja hrinu þar sem enginn sigur náðist.

Ciro Ferrara stýrði síðan Juve í tveim síðustu leikjum tímabilsins og vann þá báða. Það heillaði Ranieri ekkert.

„Juventus á að geta náð öðru sæti deildarinnar án þess að hafa þjálfara á bekknum. Það vissu allir að liðið myndi vinna þessa tvo leiki," sagði Ranieri en leikirnir voru gegn Siena og Lazio.

Ranieri hefur alltaf haldið því fram að stefnan hjá Juve hafi verið að ná Meistaradeildarsæti.

Ítölsk blöð hafa greint frá því að Ranieri sé að íhuga að fara í mál við félagið þar sem það greiddi honum engar skaðabætur við brottreksturinn.

„Það mál snýr að lögfræðingi mínum. Að sjálfsögðu er það svekkjandi að vera rekinn þegar búið er að ná þeim takmörkum sem stefnt var að. Reiðin er samt farin," sagði Ranieri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×