Fótbolti

Trapattoni: Spiluðum frábærlega og áttum að vinna

Ómar Þorgeirsson skrifar
Giovanni Trapattoni.
Giovanni Trapattoni. Nordic photos/AFP

Landsliðsþjálfarinn Giovanni Trapattoni hjá Írlandi var eðlilega afar ósáttur með að missa af möguleikanum á að komast lokakeppni HM eftir að Frakkland skoraði vafasamt sigurmark í framlengdum seinni leik liðanna í París í gær.

Thierry Henry handlék boltann greinilega áður en hann gaf stoðsendinguna sem skilaði William Gallas sigurmarkinu og Trapattoni var reiður með að markið hafi fengið að standa.

„Við erum brjálaðir því dómarinn gerði stór mistök. Hann hefði átt að taka sér tíma til þess að ræða við línuvörð og jafnvel spyrja Henry sjálfan.

Ég er líka pirraður yfir því að maður er að fara í skóla og segja krökkum um mikilvægi háttvísi í fótbolta sem og öllu öðru og svo gerist þetta. Við spiluðum frábærlega og áttum skilið að vinna en sitjum eftir með sárt ennið í staðinn," sagði Trapattoni í leikslok í gær og aðstoðarlandsliðsþjálfarinn Liam Brady tók í sama streng.

„Þetta var skammarlegur dagur fyrir fótboltann útaf atvikinu sem kostaði okkur leikinn," sagði Brady.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×