Tveir fjárfestingarsjóðir, Altor og Bure Equity, hafa fest kaup á Carnegie bankanum í Svíþjóð. Kaupverðið er 2 milljarðar sænskra kr. eða rúmlega 27 milljarðar kr..
Það var Lánastofnun sænska ríkisins, Riksgälden, sem seldi Carnegie en bankinn komst í eigu stofnunarinnar er sænska ríkið þjóðnýtti bankann fyrr í vetur. Fyrir þjóðnýtinguna átti Milestone 10% í bankanum.
Samkvæmt frétt um málið á Dagens Industri segir Bo Lundgren forstjóri Riksgälden að kaupverðið dugi til að greiða lán sem bankinn fékk frá sænskum stjórnvöldum í september s.l..
"Þessi kaup eru góð fyrir ríkið, bankann og kaupandan," segir Lundgren. "Kaupin tryggja áframhaldandi rekstur bankans og skattgreiðendur koma á sléttu út úr kaupunum."
Í tilkynningu frá Harald Mix forstjóra Altor segir að sjóðirnir tveir sjái möguleika á því að koma Carnegie aftur í hóp fremstu fjárestingabanka á Norðurlöndunum.