Stöð 2 Sport sýnir fyrsta þátt ársins um Formúlu 1 í kvöld og fjallar hann um frumsýningar keppnisliða síðustu vikurnar. Rætt er við ökumenn um komandi tímabil og sýndar breytingar á bílunum.
Þátturinn er á dagskrá kl. 19:30 í kvöld, en um aðra helgi hefjast beinar útsendingar frá Formúlu 1 mótum. Hefjast mótshelgar á Rásmarkinu á fimmtudagskvöldum, en það er þáttur á mannlegu nótunum. Verður meðal annars það nýmæli að fólk verður fengið til að keyra brautir sem keppt er á í ökuhermum í þáttunum.
Beinar útsendingar frá tímatöku og kappakstri verða í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport, en allir þættir í kringum útsendingarnar verða í lokaðri dagskrá. Eftir hvert mót verða mótin krufinn til mergjar af fagmönnum í sjónvarpssal.