Handbolti

Atli Hilmars: Feginn því að Kristín verður með

Elvar Geir Magnússon skrifar
Kristín Clausen verður með Stjörnunni í vetur.
Kristín Clausen verður með Stjörnunni í vetur.

„Um leið og varnarleikurinn fór í gang hjá okkur var þetta aldrei spurning," sagði Atli Hilmarsson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, eftir að liðið vann öruggan sigur 37-24 á FH í Meistarakeppni HSÍ í kvöld.

Stjarnan var alltof stór biti fyrir lið FH og aldrei spenna í leiknum nema rétt í byrjun. „Eftir að staðan var 9-9 þá skildu leiðir. Ég er ánægður með hvernig við héldum áfram og vorum alltaf að bæta við," sagði Atli.

„Þetta er náttúrulega titill og við þurftum að hafa fyrir því að vinna okkur inn þátttökurétt í þessum leik. Ég tel það því mjög mikilvægt að byrja svona vel."

Atli segist mjög ánægður með standið á sínu liði nú þegar vika er í Íslandsmót. „Ég er mjög ánægður með þetta. Við spiluðum einhverja fimm leiki á Reykjavíkurmótinu um síðustu helgi en kláruðum þennan leik á fullum krafti. Það eru engin meiðsli í hópnum og leikmenn í fínu standi," sagði Atli.

Kristín Clausen skoraði tvö mörk fyrir Stjörnuna í kvöld en hún hafði ýjað að því í sumar að taka sér frí frá handboltaiðkun. „Já það var stutt frí hjá henni og ég er feginn því. Hún ákvað það í gær að vera með okkur og það er virkilega ánægjulegt," sagði Atli.

„Við byrjum deildina á tveimur hörkuleikjum. Það er Valur eftir viku og svo Fram helgina á eftir. Ég held að liðið sé tilbúið," sagði Atli og hrósaði markverðinum Florentinu Stanciu sérstaklega. „Hún er frábær markvörður eins og hún sýndi í dag. Hún hjálpar okkur mikið."


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Stjörnustúlkur unnu FH auðveldlega

Stjarnan vann öruggan sigur á FH 37-24 í Meistarakeppni kvenna í kvöld. Stjörnustúlkur unnu bæði Íslandsmeistaratitilinn og bikarinn á síðustu leiktíð en léku gegn FH í þessum leik þar sem Hafnarfjarðarliðið lenti í öðru sæti bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×