Lífið

Djúpa laugin snýr aftur á næsta ári

Stefnumótaþátturinn Djúpa laugin hefur göngu sína á nýjan leik á næsta ári. Ekki er útilokað að Dóra Takefusa snúi aftur í Djúpu laugina.
Stefnumótaþátturinn Djúpa laugin hefur göngu sína á nýjan leik á næsta ári. Ekki er útilokað að Dóra Takefusa snúi aftur í Djúpu laugina.
„Við munum 100% fara í endurgerð á Djúpu lauginni,“ segir Kristjana Brynjólfsdóttir, dagskrárstjóri Skjás eins.

Á næsta ári hefur stefnumótaþátturinn Djúpa laugin göngu sína á ný eftir fimm ára hlé. Þetta varð ljóst eftir að áhorfendur stöðvarinnar völdu Djúpu laugina þann þátt sem þeir vildu helst að yrði endurgerður. „Það er svo mikið af skemmtilegum þáttum sem hafa verið á Skjáeinum og við fáum oft fyrirspurnir hvort við ætlum að sýna þá aftur. Við ákváðum að velja nokkra þætti og leyfa áhorfendum að velja,“ segir Kristjana en valið var tilkynnt í tíu ára afmælisþætti stöðvarinnar.

Kristjana er mjög spennt fyrir endurgerðinni enda voru þættirnir vinsælir á sínum tíma. „Þeir voru á föstudagskvöldum og fólk horfði mikið á þetta áður en það fór út á djammið. Það voru margir forvitnir um það hverjir voru að koma í þáttinn.“

Ekki hefur verið ákveðið hvort Djúpa laugin verði áfram á föstudagskvöldum og einnig er óvíst hverjir verða þáttastjórnendur. Kristjana útilokar ekki að Dóra Takefusa og Mariko Margrét Ragnarsdóttir sem stjórnuðu þættinum fyrst snúi aftur í sjónvarpið. „Það kemur alveg til greina og það væri mjög gaman en þær búa báðar erlendis. Við fengum Dóru til að koma í upprifjunarþættina og mér fannst þeir takast mjög vel.“ Hún bætir við að þegar séu komnar umsóknir um stöðu þáttastjórnanda þó svo að hún hafi ekki verið auglýst, sem endurspegli þann mikla áhuga sem fólk hafi á Djúpu lauginni.

Skjáreinn breytist í áskriftarsjónvarp á næstunni og hafa viðbrögðin verið góð að mati Kristjönu. „Við vissum að það myndi koma mótbyr en viðtökurnar eru bara góðar. Við bjuggumst eiginlega við meiri mótbyr.“ - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.