Íslenski boltinn

Freyr: Við pökkuðum þeim saman

Elvar Geir Magnússon skrifar
Gary Wake óskar Frey til hamingju með sigurinn í leikslok.
Gary Wake óskar Frey til hamingju með sigurinn í leikslok. Mynd/Valli

Breiðhyltingar voru í aðalhlutverki í úrslitaleik VISA-bikars kvenna í dag. Laufey Ólafsdóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir, sem skoruðu fjögur af fimm mörkum Vals, hófu feril sinn í Leikni í Breiðholtinu rétt eins og þjálfarinn Freyr Alexandersson.

Freyr var kampakátur eftir leik. „Ég er alveg í skýjunum! Það var spennuþrungið að fara í framlenginguna og mikið undir. Ég hugsaði út í það hvort mitt lið væri þreytt eftir þetta ferðalag okkar í síðustu viku en ég bað þær um að spýta í lófana og minnti þær á æfingarnar í vetur. Við bara pökkuðum þeim saman í framlengingunni," sagði Freyr.

En eftir jafnræðið í venjulegum leiktíma, hvernig stendur á því að Valsliðið hafði þessa yfirburði í framlengingunni? „Við erum klárlega í betra formi en þær, ég held að það sé alveg ljóst. Við erum í betra formi og vorum hungraðri. Það er engin önnur skýring. Þetta var í járnum í venjulegum leiktíma," sagði Freyr.

Laufey Ólafsdóttir átti frábæran leik fyrir Val eftir að hafa komið inn sem varamaður og var besti leikmaður liðsins ásamt markverðinum Maríu Björg Ágústsdóttur. „Laufey er að njóta hverrar einustu mínútu, hvort sem það er á æfingum eða í leikjum. Ég veit að henni finnst þetta rosalega gaman og það eru forréttindi fyrir hana að geta komið til baka núna og við njótum þess með henni," sagði Freyr.

Valsliðið fær ekki langan tíma til að fagna þessum bikarmeistaratitli þar sem framundan er síðari Evrópuleikurinn gegn Torres Calcio á miðvikudag. Valur á erfitt verkefni fyrir höndum eftir að hafa tapað útileiknum 4-1.

„Við ætlum okkur að vinna 3-0. Við hvílum okkur á morgun svo hefst undirbúningurinn og við ætlum að pakka þeim saman á miðvikudag," sagði hinn geðþekki Freyr Alexandersson.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×