Innlent

Össur kallar breska sendiherrann á sinn fund

Höskuldur Kári Schram skrifar

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að kalla breska sendiherrann á sinn fund vegna ummæla Gordons Browns forsætisráðherra Bretlands um ábyrgð Íslands gagnvart því að Christie spítalinn í Manchester hafi tapað fé hjá Kaupþingi í Bretlandi.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði í fyrirspurnartíma í Breska þinginu á miðvikudaginn að Bretar ættu í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hversu hratt Íslendingar endurgreiði breskum stjórnvöldum vegna innlána.

Ummælin voru í tengslum við innistæður Christies sjúkrahússins í Manchester hjá Kaupthing Singer og Friedlander. Sá banki var hins vegar breskur og undir eftirliti breska fjármálaeftirlitsins.

Ummæli Gordon Brown voru rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði ljóst að breski forsætisráðherran hafi farið með rangt mál. Hann segist ætla að kalla breska sendiherrann á Íslandi á sinn fund til þess að ræða ummæli forsætisráðherrans. „Ég er mjög hissa á því hvernig hann tók þarna til orða," sagði Össur, en tók þó fram að ekki væri tilefni til að slíta stjórnmálasambandi við Breta vegna málsins.

Hann segir einnig alvarlegt að Brown skuli segja að Bretar séu í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna Icesave málsins. Það sé eitthvað sem þurfi að skoða mjög vel enda eigi AGS enga aðild að þeim viðræðum.Hann segist því ætla að ganga eftir því að fá svör við þessum yfirlýsingum Brown hjá AGS.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×