Innlent

Tilkynnt á leiðinni á Bessastaði að hún fengi ekki fálkaorðuna

Carol Van Voorst, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Carol Van Voorst, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Mynd/GVA
Carol Van Voorst, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, var tilkynnt þegar hún var á leið á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á föstudaginn þar sem sæma átti hana heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu að ekkert yrði af orðuveitingunni. Fjallað var um málið í Kastljósi í kvöld og þar kom fram að sendiherrann hafi verið afar ósátt með uppákomuna. Mistök áttu sér stað hjá embætti forseta Íslands.

Carol lýkur senn störfum sem sendiherra á Íslandi. Samkvæmt hefð óskaði hún eftir kveðjufundi með Ólafi Ragnari. Skömmu síðar barst bandaríska sendiráðinu bréf frá utanríkisráðuneytinu þess efnis að forsetinn ætlaði að sæma hana heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu.

Sendiherrann má hins vegar ekki þiggja slíka orðu nema með samþyki sérstakrar prótókólskrifstofu sendiráða í Washington. Sú heimild fékkst og voru sendiherrahjónin boðuð á kveðjufund á Bessastaða síðastliðin föstudag.



Sendiherrann afar ósáttur


Nokkrum mínútum áður en sendiherrahjónin beygðu inn á afleggjarann að Bessastöðum fékk Carol símtal frá skrifstofu forseta Íslands þar sem henni var tilkynnt að forsetinn myndi ekki sæma hana orðunni.

Fram kom í Kastljósþættinum að Carol hafi verið afar ósátt vegna þessarar uppákomu en hún hafi engu að síður á fundinn. Þá kom einnig fram að sendiherrann hafi túlkað orð forsetans þetta kvöld þannig að orðuna fengu aðeins þeir sem hennar væru verðugir.

Orðunefnd sem tekur við og fjallar um tilnefningar um orðuveitingar fjallaði ekki um mál bandaríska sendiherrans.

Á síðustu áratugum hafa þrír sendiherrar Bandaríkjanna hlotið fálkaorðuna.

Forsetinn hefur beðist afsökunar

Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands sem vitnað var í Kastljósþættinum í kvöld kemur fram að gerð hafi verið mistök í aðdraganda brottfarar fráfarandi sendiherra.

Örnólfur Thorsson, forsetaritari, hafi sent erindi til prótókólskrifstofu utanríkisráðuneytisins um að ákveðið hefðii verið að sæma Carol heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu án þess þó að formlega hefði verið gengið frá ákvörðuninni. Ólafur Ragnar hefur beðið Carol afsökunar á þessum mistökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×