Körfubolti

Skoraði 8 stig á 11 sekúndum

James Jones og Dwyane Wade, leikmenn Miami Heat
James Jones og Dwyane Wade, leikmenn Miami Heat Nordic Photos/Getty Images

Varamaðurinn James Jones hjá Miami Heat í NBA deildinni átti magnaða innkomu í leik liðsins gegn Atlanta í úrslitakeppninni í nótt sem leið.

Jones afrekaði að skora 8 stig á aðeins 11 sekúndum undir lok annars leikhlutans. Um var að ræða tvær þriggja stiga körfur, en brotið var á honum í báðum skotunum og hann setti niður sitt hvort vítið í kjölfarið.

Jones skoraði alls 19 stig í leiknum en það dugði Miami ekki, því liðið tapaði leiknum 81-71 á heimavelli sínum og því er staðan jöfn 2-2 í þessu hörkueinvígi.

Útisigurinn var sá fyrsti í tólf tilraunum hjá Atlanta, sem hafði ekki unnið útileik í úrslitakeppni í meira en áratug.

Aðalstjarna Miami, skotbakvörðurinn Dwyane Wade, var svipur hjá sjón í leiknum í nótt og á við margvísleg meiðsli að stríða, svo ekki er hægt að segja að útlitið sé gott hjá ungu liði Miami.

Sigurvegarinn í rimmu Atlanta og Miami fær það erfiða verkefni að mæta Cleveland í næstu umferð úrslitakeppni Austurdeildarinnar.

Smelltu hér til að sjá stöðu mála í úrslitakeppninni á einfaldan hátt. Efstu átta liðin eru í Austurdeildinni og átta neðstu í Vesturdeildinni.

Eins og sjá má á myndinni eru Cleveland og LA Lakers einu liðin sem komin eru áfram í næstu umferð.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×