Lífið

Ófrýnilegur í Prince of Persia

Hörkunagli Vesírinn sem Gísli Örn Garðarsson leikur er náungi sem kallar ekki allt ömmu sína ef marka má stiklu kvikmyndarinnar Prince of Persia: The Sands of Time.
Hörkunagli Vesírinn sem Gísli Örn Garðarsson leikur er náungi sem kallar ekki allt ömmu sína ef marka má stiklu kvikmyndarinnar Prince of Persia: The Sands of Time.

„Þetta er mun meira en ég átti von á, kemur kannski svolítið á óvart,“ segir Gísli Örn Garðarsson. Honum bregður fyrir nokkrum sinnum í stiklu kvikmyndarinnar Prince of Persia: The Sands of Time þar sem Jake Gyllenhaal, Gemma Arterton og Ben Kingsley eru meðal helstu leikara.

Stiklan gefur góða mynd af umfangi kvikmyndarinnar, þetta er alvöru „blockbuster“ eins og Kaninn myndi segja. Persóna Gísla, hinn ófrýnilegi Vesír, er kynnt sérstaklega til leiks og leikarinn útskýrir að þessi harðskeytti náungi sé nokkuð fyrirferðarmikill. Þegar hann er á annað borð á hvíta tjaldinu.

„Hann er vondi gæinn og nokkuð auðþekkjanlegur sem slíkur.“ Gísli hefur reynt að tala þetta hlutverk sitt aðeins niður og látið að því liggja í sumum viðtölum að hann kynni að enda á klippiborðinu. „Maður veit aldrei,“ segir Gísli en stiklan bendir til annars.

Gísli kveðst ekki geta gefið neitt upp um framvindu mála og er þögull sem gröfin þegar hann er spurður að því hvort einhver möguleiki sé á því að hann geti leikið í framhaldsmynd.

„Ég er samningsbundinn Jerry Bruckheimer og Walt Disney og fer ekki að tala af mér í einhverju viðtali þegar svoleiðis fyrirbæri eru annars vegar,“ segir Gísli en til stóð að leikarinn myndi mæta í tökur í London í síðustu viku.

Ekkert varð hins vegar af þeim. „Maður sér það kannski í þessari stiklu hvað þetta er stórt umfangs, það kom mér í opna skjöldu.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.