Chris Cornell, fyrrum söngvari Soundgarden og Audioslave, hefur tekið upp nýja sólóplötu með hjálp upptökustjórans Timbaland. Platan nefnist Scream og kemur út 9. mars. Lögin á henni tengjast öll innbyrðis á þann hátt að hvert lag flæðir inn í hitt. Sagt er að Cornell og Timbaland hafi haft meistaraverk Pink Floyd, The Wall, til hliðsjónar við gerð plötunnar.
Cornell, sem spilaði í Laugardalshöll árið 2007, hefur látið hafa eftir sér að platan sé sú besta sem hann hafi komið nálægt á ferlinum. Hann ætlar að fylgja henni eftir með tónleikaferð um Evrópu sem hefst í febrúar.