Innlent

Hvirfilbylur myndaðist í Leirvogstungunni

Hvirfilbylir eru mikið vandamál í Bandaríkjunum eins og myndin sýnir, en þeir eru fátíðir hér á landi, þó ekki óþekktir.
Hvirfilbylir eru mikið vandamál í Bandaríkjunum eins og myndin sýnir, en þeir eru fátíðir hér á landi, þó ekki óþekktir.

„Ég hef bara aldrei séð neitt þessu líkt," segir Davíð Örn Vignisson sem var að grilla þegar hann heyrði gríðarleg læti og mikið sandfok færast nær húsinu sínu í Leirvogstungunni í kvöld.

Davíð varð dolfallinn - hvirfilvindur myndaðist í hverfinu og þyrlaði öllu lauslegu upp.

„Ég sá bara gríðarlegt sandfok og svo pappírsrusl og ruslatunnur þyrluðust upp - allt fór af stað," lýsir Davíð ótrúlegri sýn sinni í kvöld. Hann var grilla hamborgara þegar hann heyrði miklar drunur sem hann telur að hafi enst í tíu til tuttugu sekúndur.

Vinnupallur sem er við hús á móti húsi Davíðs hrökk í sundur í miðjunni. Þá sá Davíð tvo tíu ára stráka leika sér skammt frá, „þeir reyndu að forða sér lóðrétt," lýsir Davíð kraftinum sem fylgdi hvirfilvindinum.

Hvirfilbylurinn þokaðist framhjá húsinu og þaðan niður að læk þar sem hann fjaraði svo út.

Annar sjónarvottur sem Vísir ræddi við, Bjarni Guðmundsson, sá hvirfilbylinn neðan frá úr nokkurri fjarlægð.

„Hann var svona tíu metrar í ummáli og entist í stuttan tíma," segir Bjarni. Hann segir að veðrufyrirbærið hafi gengið snögglega yfir, hvirfilvindurinn hafi farið niður að læknum og þar hafi hann þyrla vatninu upp þangað til hann fjaraði út.

„Ég hef nú aldrei séð þetta hérna, en maður hefur stundum séð þetta á sjónum," segir Bjarni sem er ekki alveg ókunnugur fyrirbærinu.

Svo virðist sem enginn hafi slasast vegna fyrirbærisins sem getur orðið býsna hættulegt. Þá segir Bjarni að hann hafi ekki orðið var við eignatjón, ef nokkuð vegna þess.

Hvirfilvindir eru fátíðir hér á landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×