Innlent

Hugsanlegt að Brown hafi reynt að beita AGS þrýstingi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorvaldur Gylfason segir hugsanlegt að Brown hafi reynt að beita Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þrýstingi vegna Icesave.
Þorvaldur Gylfason segir hugsanlegt að Brown hafi reynt að beita Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þrýstingi vegna Icesave.
Það er hugsanlegt að forsætisráðherra Breta hafi reynt að beita stjórnendur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þrýstingi á bakvið tjöldin, að mati Þorvaldar Gylfasonar, hagfræðiprófessors og fyrrverandi starfsmanns sjóðsins. Þorvaldur telur þó að slíkar tilraunir geti varla borið árangur.

„Um einkaviðtöl getur maður aldrei sagt neitt að sjálfsögðu," segir Þorvaldur, aðspurður hvort hann telji að Gordon Brown forsætisráðherra Breta hafi rætt við sjóðinn. „Opinber viðtöl af því tagi tel ég þó ólíklegt, ef ekki beinlínis óhugsandi, að Bretar geti átt við sjóðinn. Því að þetta mál er algjörlega utan við verkahring sjóðsins og það færi þess vegna ekki vel á því," segir Þorvaldur. Hann segist því hafa fulla trú á þeim skýringum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gefið eftir að ummæli Browns, um samskipti hans við sjóðinn, fóru í loftið í gær. Fastafulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi þvertekur fyrir að sjóðurinn hafi blandað sér inn í þessa deilu. Um sé að ræða mál sem að ríkin verði að leysa tvíhliða. „En eins og ég segi, um einkaviðtöl getur maður ekki sagt," segir Þorvaldur.

Hann segir ekki óhugsandi að Brown hafi reynt að beita einhverja áhrifamenn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þrýstingi vegna málsins. „En sjóðurinn á að vera búinn undir tilraunir til slíks þrýstings á bak við tjöldin og á að vera þeim vopnum búinn að hann á að geta staðist hann. Því að öll aðildarríki sjóðsins eru samkvæmt stjórnarskrá sjóðsins jöfn óháð stærð og efnahagi. Þess vegna stangast það á við grundvallarhugsun á bak við sjóðinn ef eitt land í krafti stærðar sinnar getur öðlast einhvern einkaaðgang að sjóðnum vegna samskipta sjóðsins við miklu smærra land," segir Þorvaldur. Þorvaldur segir óhugsandi að slíkt myndi gerast fyrir opnum tjöldum og óhugsandi að sjóðurinn myndi ganga til slíks sambands við Breta á bakvið tjöldin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×