Erlent

Vel á annað hundrað herskáir fallið

Guðjón Helgason skrifar
Vel á annað hundrað herskáir Talíbanar og al-Kaída liðar hafi fallið í loftárásum pakistanska stjórnarhersins á norðvestur Pakistan síðasta sólahringinn. Mörg hundruð þúsund íbúar hafa flúið í skelfingu vegna stórsóknar hersins.

Gilani forsætisráðherra Pakistans boðaði í gærkvöldi til stórsóknar gegn herskáum í landinu þar á meðal Talíbönum og al kaída liðum eftir margra mánaða tilraunir til að friðmælast við Talíbana.

Búið var að ganga frá samningi um að þeir fengju Swat dal í norð vestur Pakistan og gætu tekið þar upp íslömsk sharía lög.

Það er fyrir bý vegna sóknar Talíbana í nýtt landsvæði.

Pakistönsk yfirvöld segja 140 herskáa hafa fallið í loftárásum síðasta sólahringinn og að fjölmargir hafi verið handteknir.

Á meðan eru mörg hundruð þúsund íbúar þar - líkast til milljón - á flótta.

Margir íbúar hafa þó ekki sloppið og eru innlyksa á átakasvæðinu. Fólkið biður um vopnahlé svo það geti flúið.

Gilani, forsætisráðherra Pakistans, hefur beðið alþjóðasamfélagið um hjálp svo aðstoða megi flóttamenn en þeim fjölgar nú dag frá degi.

Á meðan búa hermenn sig undir langvinna baráttu við skæruliða eftir að stórsókninni og loftárásunum verður lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×