Innlent

Sakar fjármálaráðherra um ritskoðun

Viggó Örn Jónsson hjá auglýsingastofunni Jónsson & Lemacks.
Viggó Örn Jónsson hjá auglýsingastofunni Jónsson & Lemacks.

Siðanefnd SÍA, Sambands Íslenskra auglýsingastofa, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjödæmi hafi ekki verið heimilt að nota mynd af Steingrími J. Sigfússyni í leyfisleysi í auglýsingum sínum. Auglýsingin birtist í nokkrum svæðismiðlum í kjördæminu nú fyrir kosningar og vakti nokkra athygli. Viggó Örn Jónsson einn eiganda auglýsingastofunnar Jónsson & Lemacks sem gerðu umræddar auglýsingar segir niðurstöðuna ekkert annað en ritskoðun. Hann hefur áhyggjur af því að fjármálaráðherra landsins sé að skipta sér af því hvað birtist í fjölmiðlum og hvað ekki.

Í andmælum auglýsingastofunnar Jónsson & Lemacks við kæru Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs kemur meðal annars fram að umrædd mynd hafi verið aðgengileg á vef alþingis fyrir hvern sem er í prenthæfri upplausn. Einnig segir að þar sem ekki sé verið að selja vöru eða þjónustu eigi 8.gr siðareglna SÍA ekki við en VG taldi umrædda auglýsingu brot á þeirri grein. Einnig segir að myndbirting í framboðsauglýsingu hafi oft verið notuð án athugasemda.

Siðanefnd SÍA er hinsvegar ekki sammála sjónarmiðum auglýsingastofunnar. Í niðurstöðu nefndarinnar segir að nefndin fallist ekki á sjónarmið auglýsingastofunnar um að heimilt sé að nota mynd af opinberri persónu í auglýsingaskyni án leyfis vegna þess að hún sé aðgengilega á vefnum. Því telur nefndin að auglýsingin brjóti í bága við siðareglur SÍA. Þá segir að í ljósi þess að birtingum hafi verið hætt telji siðanefndin ekki ástæðu til að úrskurða um hvers háttar brot sé að ræða.

„Það er augljóst að siðanefndin hefur einfaldlega ekki skilið málið. Þeir hafa hvorki skilið alvarleika kærunnar né dæmin okkar," segir Viggó Örn aðspurður um niðurstöðu siðanefndar. Hann segir mikinn mun vera á því að birta myndir af Steingrími J. Sigfússyni í Coca-Cola auglýsingu eða í auglýsingu sem þessari.





Umrædd auglýsing

„Það er alvarlegt mál þegar fjármálaráðherra í ríkisstjórn Íslands sendir frá sér kæru um það hvar og hvernig sé fjallað um sig í fjölmiðlum. Kæran kemur frá Vinstri grænum sem eru á sama tíma að dreifa barmmerkjum með andlitsmynd af formanni Sjálfstæðisflokksins þar sem gert er grín að honum. Í okkar auglýsingu var orðrétt tilvitnun og mynd af Steingrími, það var allt of sumt," segir Viggó.

Hann segir þetta ekkert annað en ritskoðun og það sé alvarlegt þegar aðilar í ríkisstjórn landsins sé farnir að stjórna umræðunni um sjálft sig. Viggó bendir einnig á auglýsingu sem Samfylkingin gerði fyrir kosningarnar árið 2003 þar sem birtust margar myndir af Davíð Oddssyni, Steingrími Hermannssyni, Þorsteini Pálssyni o.fl.

„Sú auglýsing var meðal annars tilnefnd til Ímark verðlaunanna."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×