Fótbolti

Gisele græddi 130 milljónir á Inter

Baldur Beck skrifar
Ofurfyrirsætan Gisele Bundchen er vel inni í málum í knattspyrnunni, enda er þessi heimsfræga þokkagyðja fædd í Brasilíu.

Ítalskir fjölmiðlar fullyrða í dag að Gisele hafi unnið 130 milljónir króna á því að veðja á leiki Inter Milan í vetur, en það er reyndar bara klink fyrir þokkadísina.

Hún mun hafa tröllatrú á Jose Mourinho sem þjálfara Inter og veðjaði á það í upphafi leiktíðar að liðið landaði meistaratitlinum. Fátt getur komið í veg fyrir að Inter vinni enn einn titilinn enda hefur liðið tíu stiga forystu þegar skammt er eftir.

Gisele ætti annars að hafa nóg skotsilfur milli handa til að veðja á einn og einn knattspyrnuleik, því eignir hennar eru metnar á um tvo milljarða króna.

Þar að auki er hún gift einum hæstlaunaðasta íþróttamanni heims, leikstjórnandanum Tom Brady hjá New England Patriots.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×