Lífið

Fimm mínútna lagfæring

Friðrik var aðeins í fimm mínútur að taka upp nýja útgáfu af Rómeó og Júlíu.
fréttablaðið/stefán
Friðrik var aðeins í fimm mínútur að taka upp nýja útgáfu af Rómeó og Júlíu. fréttablaðið/stefán

„Þetta er búið. Ég gerði þetta klukkan níu í morgun [gærmorgun] og þetta tók fimm mínútur nákvæmlega,“ segir söngvarinn Friðrik Ómar.

Bubbi Morthens hvatti hann í Fréttablaðinu í gær til að lagfæra útgáfu sína og Jógvans Hansen af laginu Rómeó og Júlíu. Ástæðan er sú að Friðrik söng

„Draumana tilbáðu þau“ í staðinn fyrir „Draumarnir tilbáðu þau“. Nýja og endurbætta útgáfan er nú komin í útvarpsspilun og þurfa Bubbi og aðdáendur hans því ekki lengur að reita hár sitt yfir mistökunum. „Ég þurfti að taka daginn snemma, það var það eina. En maður hefur bara gott af því,“ segir Friðrik.

„Það er búin að skapast svo mikil umræða um þetta og það er bara gaman. Það væri gaman að komast að því hvað er í rauninni rétt að segja, ég hef ekki hugmynd um það sjálfur,“ segir hann um hina frægu setningu. „En þetta er náttúrulega list og menn mega náttúrulega gera það sem menn vilja.“

Friðrik og Jógvan eru á leiðinni til Færeyja þar sem þeir halda útgáfutónleika í Norðurlandahúsinu á laugardag. Þetta verður í fyrsta sinn sem Friðrik kemur til Færeyja. „Ég hlakka rosamikið til. Ég ætla líka að heimsækja Klakksvík og skoða æskuslóðir Jógvans,“ segir hann og bætir við að afar þægilegt sé að vinna með Færeyingnum. „Hann er svona „ligeglad“ og kærulaus á skemmtilegan hátt.“

Hér heima stefna þeir félagar á aukaútgáfutónleika í Salnum í Kópavogi föstudaginn 13. nóvember, vegna fjölda áskorana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.