Lífið

Ótrúlegar vinsældir Stiegs Larsson

Millennium-æðið er heldur betur í fullum gangi hér á landi. Íslendingar fá ekki nóg af Lisbeth Salander.
Millennium-æðið er heldur betur í fullum gangi hér á landi. Íslendingar fá ekki nóg af Lisbeth Salander.
Fjórtán þúsund manns hafa séð kvikmyndina Stúlkan sem lék sér að eldinum síðan hún var frumsýnd 2. október. Að auki hafa um sex þúsund eintök selst af samnefndri bók sem var gefin út í íslenskri þýðingu 18. september.

„Þetta er bara algjört æði, það hefði enginn getað látið sig dreyma um þetta. Þetta er bara mjög óvenjulegt,“ segir Guðrún Vilmundardóttir hjá útgáfunni Bjarti. „Hún nær á mánuði því sem hin tók á ári,“ bætir hún við og á þar við fyrstu bókina í Millennium-þríleiknum, Karlar sem hata konur. Hún hefur selst í um sex þúsund eintökum innbundin síðan hún kom út í október í fyrra. Eftir að hún kom út í kilju hafa níu þúsund eintök bæst við.

Þriðja og síðasta bókin, Loftkastalinn sem hrundi, er væntanleg í íslenskri þýðingu í næsta mánuði. Ensk þýðing hennar er þegar komin í búðir og hefur selst vel. Guðrún segir að þeir sem geti ekki beðið eftir íslensku þýðingunni fái sér hana. Engu að síður hefur hún heyrt kvartanir. „Hann er allt öðruvísi þessi skandinavíski heimur sem við höfum aðgang að. Mér skilst að fólki finnist hann ekki komast nógu vel til skila í ensku útgáfunni.“

Hvað varðar kvikmyndina er hún skammt undan Körlum sem hata konur í aðsókn miðað við jafnlangan sýningartíma. Nítján þúsund manns sáu hana á jafnlöngu tímabili og endaði aðsóknin í 52 þúsund gestum. Hún er önnur mest sótta mynd ársins hjá Senu á eftir Hangover. Að auki er DVD-mynddiskurinn með Körlum sem hata konur uppseldur hjá útgefanda. Sex þúsund eintök eru farin og er von á nýrri sendingu von bráðar.

- fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.