Gestir í kvöldverðarboði MP banka í síðustu viku segjast hafa orðið vitni að töluverðri áfengisneyslu Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem síðar um kvöldið flutti framsögu og tók þátt í umræðum á Alþingi um Icesave málið. Þetta kemur fram í DV í dag. Í samtali við Ríkisútvarpið í gær þvertók Sigmundur fyrir að hafa smakkað áfengi umrætt kvöld.
Sigmundur tók þátt í fjörugum umræðum um Icesave á fimmtudagskvöld fyrir viku þar sem Ragnheiður Ríkarðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og einn varaforseta Alþingis, fullyrti að ekki loguðu öll ljós í kollinum á honum. Þá var hrópað á Sigmund úr þingsal að hann hefði starfað fyrir auðmenn.
Þá kom fram í kvöldfréttum Ríkisjónvarpsins í gærkvöldi að Ragnheiður ætli að ræða framgöngu Sigmundar sérstaklega á fundi forsætisnefndar á morgun. Í framhaldinu gagnrýndi Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flokkssystur sína í samtali við Vísi og sagði viðbrögð Ragnheiðar harkaleg. Árni hafði ekkert út á hegðun Sigmundar að setja.
Ekki náðist í Sigmund í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.