Lífið

Tökum á Heaven"s Taxi að ljúka í miðborg Berlínar

Helgi Björnsson við tökur á kvikmyndinni Heaven´s Taxi í miðborg Berlínar. Þar leikur hann rannsóknarlögreglumanninn Hans undir leiðsögn leikstjórans Daryush Shokof. Kormákur Geirharðsson skilur þessar sérstöku aðstæður kvikmyndastjörnunnar Helga Björns.
Helgi Björnsson við tökur á kvikmyndinni Heaven´s Taxi í miðborg Berlínar. Þar leikur hann rannsóknarlögreglumanninn Hans undir leiðsögn leikstjórans Daryush Shokof. Kormákur Geirharðsson skilur þessar sérstöku aðstæður kvikmyndastjörnunnar Helga Björns.
Helgi Björnsson er þessa dagana staddur í Berlín þar sem tökur standa yfir á kvikmyndinni Heaven"s Taxi í leikstjórn Daryush Shokof frá Íran.

„Þetta er allt skotið í miðborginni og við vorum í kringum Brandenborgarhliðið á miðvikudaginn. Það er dálítið lýjandi að vera í þessu en það er líka mjög gaman. Þetta eru langir dagar. Maður vaknar sex á morgnana og er að koma heim tíu eða hálfellefu. En þetta er mjög skemmtilegt engu að síður,“ segir Helgi en tökur hófust fyrir rúmri viku og lýkur þeim innan skamms.

Í myndinni leikur hann rannsóknarlögreglumanninn Hans sem sérhæfir sig í hryðjuverkamálum. Meðal þeirra sem leika á móti honum er íranska leikkonan Taies Farzan og hinn virti þýski leikari Vadim Glowna. Heaven"s Taxi er nokkurs konar ádeila á írönsk stjórnvöld og frumsýning hennar fyrirhuguð í mars á næsta ári.

Leikstjórinn Shokof hefur gert um fimmtán stuttmyndir og myndir í fullri lengd á ferli sínum. Þekktasta mynd hans er Seven Servants frá árinu 1995 sem var síðasta mynd goðsagnarinnar Anthony Quinn. Hún var þó ekki frumsýnd fyrr en fyrr á þessu ári. Myndir sínar hefur hann unnið sjálfstætt án aðkomu stórra kvikmyndavera og eru þær oftast með pólitískum og heimspekilegum undirtóni.

Helgi hefur fleiri járn í eldinum því til stendur að hann leiki í nýrri mynd finnska leikstjórans Rennys Harlin, Mannerheim. Enn á þó eftir að ákveða hvenær tökur á henni hefjast. „Það er búinn að vera höfuðverkur að fjármagna hana en mér skilst að það sé að nálgast,“ segir hann. Einnig er hugsanlegt að Helgi leiki í annarri þýskri mynd á næsta ári en það á allt saman eftir að koma betur í ljós.

Helgi átti að syngja með hljómsveit sinni Kokteilpinnunum í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld en eftir að tökurnar á Heaven"s Taxi frestuðust varð að aflýsa gigginu. „Því miður þurftum við að fella niður sýninguna út af þessu en um næstu helgi verður allt á sínum stað,“ segir hann hress.

Félagi hans Kormákur Geirharðsson úr Kokteilpinnunum er svekktur yfir því að aflýsa þurfti tónleikunum en skilur vel þessar óvenjulegu aðstæður. „Þetta hittir svona slysalega á en menn neita ekki kvikmyndatilboði frá erlendri grund, sérstaklega ekki þegar menn fá borgað í evrum.“

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.