Lífið

Fersk XX byggir á fortíðinni

Gríðarlega svöl The XX frá vinstri: Jamie, Baria, Romy og Oliver.
Gríðarlega svöl The XX frá vinstri: Jamie, Baria, Romy og Oliver.

Það er kominn október og tónlistarspekúlantar eru farnir að velta því fyrir sér hvaða plötur verða á listanum yfir plötur ársins. Þar á meðal verður væntanlega fyrsta plata The XX frá London.

Hljómsveitin The XX hefur verið að vekja mikla athygli síðustu vikurnar fyrir fyrstu plötuna sína sem heitir einfaldlega XX. Tónlistarlega sækir bandið stíft í fortíðina, greina má áhrif frá nýbylgjuböndum eins og Young Marble Giants, The Slits og The Cure á fyrstu árum sínum, það er síað í gegnum Bristol-bylgjuna frá sirka 1995 og ofur nútímalegt R&B í anda Timbaland. Þótt áhrifin séu forn er niðurstaðan fersk og platan hefur fengið skínandi góða dóma. XX verður eflaust ofarlega víða þegar spekingar gera upp árið.

The XX er skipað fjórum Lundúnakrökkum um tvítugt, tveimur stelpum og tveimur strákum. Romy Madley Croft spilar á gítar og syngur og Oliver Sims spilar á bassa og syngur. Að hafa söngvara af báðum kynjum skapar skemmtilega breidd og þau syngja oft á móti hvort öðru í Gainsbourg/Birkin eða Sinatra/Hazlewood-fílingi. Þau eru þó ekki kærustupar. Baria Qureshi spilar á gítar og Jamie Smith spilar á trommuheila með mikilli fimi eins og sjá má á netinu í tónleikaupptökum.

Platan var tvö ár í vinnslu og á tímabili voru upptökumennirnir Diplo og Kwes með puttana í henni. Að lokum tók bandið sjálft við hljóðvinnslunni.

Bandið varð til þegar meðlimirnir kynntust í Elliott listaskólanum, en þaðan eru líka bönd eins og Hot chip, Burial og Four Tet. The XX er hluti af nýrri óformlegri bylgju Lundúnasveita, sem telur bönd eins og Florence and the Machine og Micachu and the Shapes (sem væntanleg er á Airwaves).

Í heimi troðfullum af nýrri tónlist sem hægt er að nálgast jafn auðveldlega og að smella á mús, er nauðsynlegt að vita hvað er gott. Og The XX er gott band. Tónlistin er mjög þurr á manninn og alvarleg, þó gríðarlega svöl og allt annað en leiðinleg. Þau fara sparlega með, það er mikið rými í lögunum og þau anda vel. Stundum er ekkert í gangi nema bassi og söngur eða trommuheili og söngur.

The XX er eiginlega tímalaust band því platan þeirra hefði nánast getað komið út hvenær sem er á síðustu þremur áratugum. Ef þú fílar Roxy Music, New Order, Portis­head og Interpol ætti gæðaplatan XX nú þegar að vera komin undir geislann.drgunni@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.