Viðskipti erlent

Björgólfur Thor í vanda með Sjælsö vegna tæknilegs gjaldþrots

SG Nord Holding, einn af stærstu eigendum fasteignafélagsins Sjælsö Gruppen í Danmörku er tæknilega gjaldþrota að því er segir á börsen.dk í morgun. Björgólfur Thor Björgólfsson er annar stærsti eigandi SG Nord Holding.

Börsen segir SG Nord Holding tæknilega gjaldþrota þar sem félagið hafi tapað tæplega 900 milljónum danskra kr. eða um 20 milljörðum kr., á fjárfestingu sinni í Sjælsö Gruppen á síðasta ári.

Auk Björgólfs Thors er Sjælsö Gruppen í eigu Rönje-bræðranna þeirra Ib og Torben. Börsen segir að vandi SG Nord Hiolding skapi óvissu um framtíðareignarhaldið á Sjælsö.

Hlutafé í Sjælsö hefur fallið gríðarlega í verði undanfarið ár. Við upphaf síðasta árs stóð hluturinn í tæpum 140 kr. dönskum en um síðustu áramót var hann kominn niður í 20,5 kr. danskar.

Sjælsö glímir við sama vanda og önnur fasteignafélög í Danmörku en verð á fasteignum þar í landi hefur verið í frjálsu falli frá því að fjármálakreppan skall á í heiminum s.l. sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×