Viðskipti erlent

Nýr pallbíll frá VW

Volkswagen Amarok verður frumkynntur í Suður-Ameríku árið 2010.
Volkswagen Amarok verður frumkynntur í Suður-Ameríku árið 2010.

Volkswagen kynnir nýjan pallbíl sem hefur fengið nafnið Amarok. Hann er væntanlegur á markað á Íslandi um mitt næsta ár.

Haustið 2009 verður Volkswagen Amarok fyrsti pallbíllinn sem frumkynntur er frá stórum evrópskum bílaframleiðanda í Suður-Ameríku. Með Amarok, sem þýðir úlfur á inúítamáli, stefnir Volkswagen að því að verða fullgildur þátttakandi í alþjóðlegum markaði fyrir pallbíla þar sem japanskir framleiðendur hafa fram til þessa að mestu leyti verið einráðir.

Amarok verður framleiddur í Pacheco-verksmiðju Volkswagen nálægt Buenos Aires í Argentínu. Pallbílar eru mjög eftirsóttir í Brasilíu og Argentínu jafnt til frístundanotkunar og í atvinnuskyni.

Amarok er fyrsti pallbíll í þessum stærðarflokki sem framleiddur er af evrópskum bílaframleiðanda. Samkeppni frá öðrum pallbílum í 1-tonna flokki mun einkum koma frá asískum framleiðendum. Amarok er sjötta gerðin sem framleidd er af Volkswagen atvinnubílum en fyrir eru gerðirnar Caddy, Transporter og Crafter ásamt Saveiro og T2, en tveir síðastnefndu eru eingöngu til sölu í Suður-Ameríku.

Amarok verður kynntur sem fernra dyra „double-cab“ með fjórhjóladrifi. Síðar verður boðið upp á „single-cab“ útfærslu. Hann verður boðinn með sparneytnum vélum og útlitshönnunin er í takt við nýjustu strauma hjá Volkswagen. Hann verður með hátæknilega, aflmikla en um leið sparneytna dísilvél með forþjöppu og nýjustu kynslóð samrásarinnsprautunar (TDI). Amarok verður með hagstæðari eldsneytisnýtingu og minni útlosun mengandi lofttegunda en áður hefur tíðkast í flokki pallbíla.

Ráðgert er að Amarok verði fyrst settur á markað í Suður- og Mið-Ameríku vorið 2010 og í framhaldi af því í Rússlandi og Evrópu sem og Afríku og Ástralíu. Hann er væntanlegur á markað á Íslandi um mitt næsta ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×