Körfubolti

Los Angeles Lakers búið að vinna 63 leiki eins og Cleveland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant myndaður af syni Diane Keaton á leiknum í nótt.
Kobe Bryant myndaður af syni Diane Keaton á leiknum í nótt. Mynd/GettyImages

Það stefnir í spennandi keppni milli Cleveland Cavaliers og Los Angeles Lakers um besta árangurinn í NBA-deildinni í körfubolta á þessu tímabili og þar með heimavallarrétt út úrslitakeppnina. Lakers-liðið vann sinn fimmta leik í röð í nótt og er því búið að vinna jafnmarga leiki og Cleveland.

Kobe Bryant var með 33 stig og Pau Gasol bætti við 27 stigum og 19 fráköst í 116-102 sigri Los Angeles Lakers á Denver Nuggets. Andrew Bynum lék þarna sinn fyrsta leik síðan í lok janúar. Hann var með 16 stig og 7 fráköst á aðeins 21 mínútu.

Cleveland Cavaliers og Los Angeles Lakers eru bæði búin að vinna 63 leiki en Cleveland á leik inni, hefur tapað 15 leikjum á móti 16 töpum hjá Lakers.

Carmelo Anthony var með 23 stig hjá Denver en þetta var fyrsta tap liðsins í níu leikjum. J.R. Smith skoraði 19 stig og þeir Chauncey Billups og Nene voru báðir með 17 stig.

Ben Gordon og Tyrus Thomas voru báðir með 24 stig í 113-99 sigri Chicago Bulls á Philadelphia 76ers en með þessum sigri bætti Chicago stöðu sína í baráttu um að sleppa við að mæta Cleveland í úrslitakeppninni. Andre Miller var með 20 stig hjá Philadelphia. Þetta var 13 heimasigur Bulls-liðsins í síðustu 14 heimaleikjum.

Ron Artest var með 26 stig í 115-98 sigri Houston Rockets á Sacramento Kings. Yao Ming var með 20 stig og 9 fráköst en hjá Kings var Spencer Hawes með 22 stig og 11 fráköst. Þetta var sjötta tap Sacramento í röð og liðið er nú með versta árangurinn í deildinni- 16 sigra og 62 töp.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×