Innlent

Erfitt að yfirgefa ofbeldissambandið

Sigþrúður Guðmundsdóttir Fræðslu- og framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir mikilvægt að hamra á því að heimilisofbeldi sé ekki eðlileg viðbrögð við atvinnumissi eða fjárhagsörðugleikum.Fréttablaðið/Pjetur
Sigþrúður Guðmundsdóttir Fræðslu- og framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir mikilvægt að hamra á því að heimilisofbeldi sé ekki eðlileg viðbrögð við atvinnumissi eða fjárhagsörðugleikum.Fréttablaðið/Pjetur

Samfélagsmál Erlendum konum hefur fækkað mjög hjá Kvennaathvarfinu síðan í haust en á sama tíma hefur íslenskum konum fjölgað mjög mikið. Þetta segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, fræðslu- og framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.

„Við vitum ekki af hverju það er,“ segir hún. „Eina skýringin sem okkur dettur í hug er sú að þær haldi sig frekar heima, því valmöguleikum hafi fækkað. Það er erfiðara með atvinnu og erfiðara að fóta sig eftir skilnað og því haldi þær sig inni á heimilunum.“

Sigþrúður segir að aðrar skýringar geti komið til, ótengdar atvinnuástandinu, en þeim hafi ekki dottið neinar aðrar skýringar í hug. Hún minnir á að konur sem koma utan EES-svæðisins geti fengið dvalar­leyfi, þótt þær hafi verið giftar íslenskum mönnum í skamman tíma, ef þær skilja vegna ofbeldis.

Hvað varðar auknar komur íslenskra kvenna telur Sigþrúður líklegt að almennt hafi þrengst um og þær hafi því í færri hús að venda en að leita til Kvennaathvarfsins. „En það er mikilvægt að eðlileg viðbrögð við atvinnumissi eða fjárhagsörðugleikum er ekki að beita maka sinn ofbeldi. Í eðlilegum samböndum, sem einkennast af virðingu, jafnrétti og ást, þá er það ekki líklegt. En við vitum líka að streita er mikill áhrifa­valdur.“

Sigþrúður segist hafa áhyggjur af ástandinu og heyra frá konum að óseljanlegar eignir og ókljúfanlegar skuldir geri það að verkum að þær geti ekki skilið við ofbeldismenn og komist ekki út af heimilinu.

Einnig hafi hún áhyggjur af atvinnumissi kvenna, þar sem einangrun ýti undir hættuna á ofbeldi.

„Við myndum vilja sjá að framfærsla fjölskyldunnar væri á einhvern hátt tryggð þangað til skilnaður og eignaskipti væru gengin í gegn.“

Jafnframt segir Sigþrúður það mikilvægt einmitt núna að lögreglan hafi lagalega heimild til að fjarlægja ofbeldismann af heimili strax, þannig að konan þurfi ekki að fara að heiman með börnin. „Það er grundvallaratriði að konur þurfi ekki að fara að heiman, heldur að það sé friðarspillirinn á heimilinu sem sé færður í burtu,“ segir hún.

svanborg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×