Lífið

Hrunið tólffaldaði söluna

útflutningsvörur Árni Jón Sigfússon og Sófus Gústavsson senda meðal annars lýsi, pylsur og nammi til útlanda. Allt íslenskt að sjálfsögðu.fréttablaðið/vilhelm
útflutningsvörur Árni Jón Sigfússon og Sófus Gústavsson senda meðal annars lýsi, pylsur og nammi til útlanda. Allt íslenskt að sjálfsögðu.fréttablaðið/vilhelm

„Það er búið að vera hreint út sagt bilun að gera,“ segir Sófus Gústavsson, framkvæmdastjóri Nammi.is.

Gengisfall íslensku krónunnar hefur hleypt miklu lífi í útflutning á íslenskri vöru. Vefverslunin Nammi.is fór úr því að selja nánast eingöngu sælgæti yfir í útflutning á vörum eins og lýsi, lopa og tónlist.

„Við misstum alveg námsmennina í útlöndum, sem var reiðarslag í byrjun, en söluaukningin var það gríðarleg að það skiptir okkur kannski engu máli í dag. Við tólffölduðum fyrirtækið,“ segir Sófus. Hann sendir vörur um allan heim, en þessa dagana er mest sent alla leið til Asíu. „Lýsisvörurnar eru gríðarlega vinsælar í Asíu,“ segir hann.

Íslenskur matur er vinsæll á Nammi.is, en Sófus segir að sælgætið sé alltaf pantað með. „Við erum með íslenskan mat, skyrið, lambakjöt og hangikjöt,“ segir hann. „Það er rosalega mikil sala í því núna. Útlendingar eru sérstaklega hrifnir af hangikjötinu – og þeir kaupa líka malt og appelsín.“ Nú líður að jólum og Sófus býst við að það hleypi enn þá meira lífi í söluna. „Um jólin má búast við því að útlendingar kaupi jólagjafirnar hjá okkur. Það er auðvitað algjör snilld.“

Nammi.is var með eitt og hálft stöðugildi fyrir tveimur árum, en í dag eru þrír í fullu starfi ásamt fjölda fólks í alls kyns íhlaupastörfum. Síðunni var breytt og vöruúrvalið aukið í kjölfar bankahrunsins, þegar salan tók hressilega við sér. „Útlendingarnir vildu kaupa meira af íslenskri vöru og þá hófum við að selja vörur sem voru ekki áður í boði á síðunni,“ segir Sófus. „Nammi.is byrjaði fyrst og fremst sem nammisala.“

Nýjasta varan á síðunni í dag er hinn rammíslenski lopi, en Sófus segir að gríðarleg eftirspurn sé eftir honum: „Bæði lopi og lopa­peysur. Salan er miklu meiri en við bjuggumst við.“

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.