Fótbolti

Mourinho: Ósáttur við Chelsea - ekkert boð borist í Vieira

Ómar Þorgeirsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Jose Mourinho hjá Inter sat fyrir svörum á blaðamannafundi fyrir leik Inter og Lazio í ofurbikarnum á laugardag og tjáði sig meðal annars um endalausar sögusagnir um tvíeykið Deco og Carvalho hjá Chelsea og framtíð Vieira hjá Inter.

„Það virðist vera erfitt fyrir leikmenn Chelsea að ganga til liðs við mig hjá Inter. Í hvert skipti sem ég hef áhuga á leikmanni þá hækkar verðið skyndilega á þeim upp úr öllu valdi. Þetta er skrýtið en svona er þetta samt.

Mér skildist í byrjun sumars að Deco væri falur fyrir litla upphæð en eftir að forráðamenn Chelsea heyrðu af áhuga mínum þá kostaði hann allt í einu 5 milljónir punda. Það sama á við um Ricardo Carvalho sem hækkaði úr 5 milljónum punda í 15 milljónir punda eða eitthvað álíka," segir Mourinho.

„Hvað varðar Patrick Vieira þá hefur hann verið orðaður við mörg félög. Ég hef heyrt að bæði Arsenal og Tottenham hafi áhuga á honum en forráðamenn félaganna hafa ekki sett sig í samband við okkur. Ef þau hafa áhuga verða þau að hafa samband til þess að eitthvað geti gerst," segir Mourinho.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×