Innlent

Borgarahreyfingin fordæmir ríkisstjórnina

Herbert Sveinbjörnsson, formaður Borgarahreyfingarinnar - þjóðin á þing.
Herbert Sveinbjörnsson, formaður Borgarahreyfingarinnar - þjóðin á þing.

Borgarahreyfingin - þjóðin á þing fordæmir ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna harðlega fyrir að ætla að ganga á bak orða sinna um persónukjör í komandi alþingiskosningum. „Boðað undanhald ríkisstjórnarinnar í málinu byggir á einni ósannfærandi álitsgerð um að 2/3 hluta atkvæða þurfi til að samþykkja frumvarpið um persónukjör," segir í yfirlýsingu frá hreyfingunni.

„Það bendir til þess að hugur fylgi ekki máli. Frumvarpið um persónukjör felur í sér eitt varfærnislegt en mikilvægt skref í átt til aukinna áhrifa almennra kjósenda á Íslandi. Auknu lýðræði. Rök sem tínd hafa verið til gegn frumvarpinu - fyrst af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en síðan af þingmönnum stjórnarflokkanna eftir að þeir höfðu sjálfir tryggt sér örugg þingsæti í lokuðum prófkjörum - eiga það sameiginlegt að vera veikburða. Íslensk stjórnvöld brugðust þjóðinni og í kjölfar efnahagshruns er brýnt að verða við kröfunni um aukin áhrif kjósenda," segir ennfremur.

Að lokum er þess krafist að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, og Framsóknarflokkurinn, efni sín heit við kjósendur, standi við orð sín og afgreiði frumvarpið um persónukjör með einföldum meirihluta á Alþingi eins og lög gera ráð fyrir. „Borgarahreyfingin - þjóðin á þing mun láta almennum kjósendum eftir að raða frambjóðendum á sínum framboðslistum 25. apríl. Það eina sem getur komið í veg fyrir það er að flokkarnir sem standa að ríkisstjórninni taki höndum saman við Sjálfstæðisflokkinn og svíki þar með kjósendur um þann valkost sem persónukjör er," segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×