Innlent

Óttaðist að yfirheyrslur færu á netið

Sérstakur saksóknari bankahrunsins óttaðist yfirheyrslur yfir vitnum á hljóð og mynddiskum í Q-Finance málinu, kynnu að berast á netið, fengju verjendur grunaðra þau í hendur.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, og Ólafur Ólafsson, sem var stór eigandi, eru grunaðir um að hafa staðið fyrir sýndarviðskiptum, þegar Al-Thani frá Katar átti að hafa eignast stóran hlut í Kaupþingi rétt fyrir hrunið

Hæstiréttur dæmdi í gær að þeir fengju ekki í hendur yfirheyrslur yfir öðrum en þeim sjálfum, nema í formi endurrits. Eða sá er að minnsta kosti skilningur Hæstaréttar á orðinu „skjal". Verjendur hinna grunuðu fengu því ekki afrit af skýrslum yfir öðrum, á hljóð og mynddiskum.

„Í þessu máli er byggt á tveimur málsástæðum. Annarsvegar að þetta töldust ekki skjöl heldur önnur gögn sem við ættum að veita þeim aðgang að en ekki að fjölfalda. Hinsvegar að brýnir einkahagsmunir þeirra sem voru teknir upp á hljóð o mynd að þetta færi ekki fjölfaldað frá embættinu," segir Ólafur Þór. Hann bætir því við að ef brýnir einkahagsmunir standa til, þá sé hægt að synja um afhendingu gagna.

Vitnað er í bréf frá sérstökum saksóknara, í sératkvæði Jóns Steinars Gunnlaugssonar, í Hæstaréttardómnum. Þar segir saksóknarinn að á hljóð- og mynddiskunum færi efni sem varðaði persónuleg málefni þeirra sem í hlut eiga. Væri slíkt efni lagt í hendur verjenda opnist möguleiki á að það færi víðar.

„Eftir að gögn sem hægt er að fjölfalda eru farin út frá embættinu þá hefur embættið náttúrulega enga stjórn á því eða möguleika að koma í veg fyrir að gögnin fari víða. Þá er alltaf sú hætta til staðar að þau fari í fjölföldun og þess vegna á netið," segir Ólafur Þór.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×