Fótbolti

Henry: Það væri sanngjarnast að spila leikinn aftur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Thierry Henry.
Thierry Henry. Nordic photos/AFP

Franski landsliðsframherjinn Thierry Henry hefur gefið frá sér yfirlýsingu í kjölfar fjaðrafoksins í kringum síðari umspilsleik Frakklands og Írlands í undankeppni HM 2010.

Henry handlék boltann í framlengingunni rétt áður en hann gaf stoðsendinguna á sigurmarki Frakka í leiknum sem tryggði þeim farseðilinn á lokakeppni HM næsta sumar.

Írar sitja aftur á móti eftir með sárt ennið og hafa farið fram á að leikurinn verði spilaður aftur og Henry segir að það væri besta lausnin fyrir alla aðila.

„Það væri sanngjarnast að spila leikinn aftur. Ég viðurkenndi það strax í leikslok fyrir dómara leiksins, leikmönnum Íra og fjölmiðlum að þetta var hendi.

Ég er ekki svindlari og hef aldrei verið og menn hafa reynt að greina þetta atvik í tætlur með því að sýna það hægt en ég tel að um ósjálfráð viðbrögð hafi verið að ræða.

Þetta er hins vegar leiðinlegt mál og vandræðalegt fyrir okkur Frakka að komast áfram með þessum hætti og sorglegt fyrir Íra að falla úr leik því þeir eiga svo sannarlega skilið að vera á lokakeppninni.

Ég vorkenni Írum mjög mikið en get gert lítið annað í málinu," segir í yfirlýsingu frá Henry.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×